146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

skipun dómara í Landsrétt.

[11:10]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þingmaður veit mætavel, vegna þess að hann situr í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, er þetta mál, tillaga mín til þingsins, þar til umfjöllunar. Þennan hæstaréttardóm sem þingmaður vísar til hefur borið þar á góma líka. Ég hef reynt að lýsa því fyrir nefndinni, og get svo sem gert það aftur, að hvaða leyti ég tel að nefndur dómur lúti ekki að þeim málsatvikum sem liggja fyrir þinginu. Það hæstaréttarmál laut að skipun í embætti héraðsdómara á árinu 2007 í allt öðru lagaumhverfi en nú er. Annað er líka rangt sem fram kemur hjá hv. þingmanni, ráðherrann sem þar um ræddi var ekki dæmdur til greiðslu skaðabóta heldur miskabóta. Ég vek athygli á að í því máli voru líka sératkvæði sem fjölluðu sérstaklega um grundvöll miskabóta, en það er nú kannski fyrir utan þessa umræðu. Það er rétt að halda því til haga því að hér var farið með rangt mál í þessu.

Eftir að þessi dómur var kveðinn upp, nokkru síðar, árið 2010, var reglum breytt um skipun dómara í landinu í verulegum atriðum. Að kröfu þingsins eru reglurnar þannig að þinginu sem óskaði eftir því að axla ábyrgð og hafa aðkomu að skipun dómara var veitt það inngrip. Það var sérstaklega áréttað í lögum um Landsrétt að Alþingi fengi þessa ábyrgð og þarf þá auðvitað að axla hana. Ég hef í störfum mínum sem dómsmálaráðherra, í þessu máli og í öðrum störfum mínum, eins og öll önnur stjórnvöld, haft öll sjónarmið stjórnsýsluréttar í huga við allar ákvarðanir og málsmeðferð sem undir mig heyra. Ég hef gert það í þessu máli, ég hef lagt fram rökstuðning fyrir hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í þeim efnum, almennan rökstuðning og jafnvel sérstakan líka og það þótt ekki sé kveðið á um það í þessum sérstöku lögum sem lúta að skipun dómara við Landsrétt.