146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

styrking krónunnar og myntráð.

[11:16]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ósættið og stefnuleysið ríður ekki við einteyming hjá hæstv. ríkisstjórn. Fram kom áðan að sá sem fer með eignarhaldið í Leifsstöð, hlutabréfið, hefur hvorki skoðað né rætt í ríkisstjórn hugmyndir sem lagðar hafa verið fram af meiri hluta fjárlaganefndar.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra tala út og suður um íslensku krónuna. Að sjálfsögðu er það bæði hollt og gott að menn skiptist á skoðunum um stórt og smátt, en ég hygg að fyrirkomulag gjaldmiðils landsins sé ekki einkamál eins eða tveggja.

Fjármálaráðherra hefur tekið að sér það hlutverk að tala gjaldmiðilinn niður og heggur þar í sama knérunn og fyrrverandi forsætisráðherra gerði á árum áður, 2009–2013, þegar Evrópusambandstrúboðið stóð sem hæst.

Fjármálaráðherra á sér þó alla vega einn bandamann, en af tillitssemi við þá sem að því stóðu verður sú sneypuför ekki rifjuð upp hér. Þá verður að geta þess að núverandi hæstv. fjármálaráðherra vill inn í Evrópusambandið, eins og lesa má á heimasíðu flokks hans, en þar segir að aðild að ESB fylgi margir kostir sem styrki stöðu Íslands og efli hagsæld.

Forsætisráðherra hefur á hinn bóginn sent út þau skilaboð að krónan sé framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar og í þeim efnum á hann örugglega fleiri stuðningsmenn en fjármálaráðherra.

Frú forseti. Krónan hefur styrkst mikið á undanförnum misserum. Við þeirri styrkingu er hægt að bregðast með ýmsu móti. En sú tilfinning gerir nú æ meira vart við sig að ríkisstjórnin viti ekki hvað gera skuli til að stemma stigu við þeirri styrkingu. „Ekki gera neitt“ er slagorð sem notað er af fyrirtæki hér í bæ. En athafnaleysi getur þó leitt til ákveðinnar niðurstöðu.

Mig langar því að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að best sé að láta krónuna sigla sinn sjó svo henni verði ekki bjargað nema með myntráði eða hugsanlega þátttöku í ERM II.