146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

styrking krónunnar og myntráð.

[11:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur endaskipti á hlutunum, m.a. þessu slagorði sem hann vitnar í. Slagorðið er nefnilega akkúrat öfugt við það sem hann sagði. „Ekki gera ekki neitt“ er slagorðið og það er einmitt slagorð ríkisstjórnarinnar líka, hún er að gera hluti. Þar erum við að skoða leiðir til þess að tryggja meiri stöðugleika og við höfum skipað nefnd um framtíðarpeningastefnu þjóðarinnar þar sem m.a. er til skoðunar myntráð. Myntráð byggir vissulega á íslenskri krónu en það byggir á íslenskri krónu sem er tengd við erlendan gjaldmiðil.

Ég hef hins vegar sagt það óhikað og er þeirrar skoðunar enn að það hefði verið gæfa fyrir íslensk fyrirtæki, fyrir íslenska útflutningsaðila, fyrir ferðaþjónustuna, fyrir tækniþjónustuna, fyrir forritunarfyrirtækin, fyrir sjávarútvegsfyrirtækin, ef við hefðum verið með kerfi þar sem gengi evrunnar hefði haldist í 130 kr. eins og það var við upphaf kosningabaráttunnar í haust. Ég held að það hefði farið vel á því að við hefðum bundist böndum um að festa gengi krónunnar, tryggja stöðugleika í landinu, tryggja að hér haldist störf áfram, ekki bara störf almennt heldur hin verðmætustu störf sem nú flykkjast úr landi vegna þess að íslenskir tæknimenn eru orðnir svo miklu dýrari en tæknimenn í erlendum löndum. Það er ekki vegna þess að laun þeirra hafi hækkað að undanförnu heldur vegna þess að krónan er að styrkjast og þegar við horfum á verð í krónum horfa menn meira og meira til útlanda.