146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

styrking krónunnar og myntráð.

[11:20]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Fjármálaráðherra verður að koma hér upp og svara því hvort ríkisstjórnin sé að framfylgja stefnu og áhugamálum hans og hans flokks eða þeirri stefnu sem snýr að því sem hæstv. forsætisráðherra hefur sagt, að krónan sé framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar. Það gengur ekki að koma hér upp og fabúlera um þetta. Fjallað hefur verið um myntráð og ERM II hjá Seðlabankanum og þá hefur verið sagt, svo ég vitni nú til skýrslu Seðlabankans, með leyfi forseta:

„Að hluta til er hugmyndin á bak við ERM II fyrirkomulagið að það þjóni hlutverki „þjálfunarbúða“ þar sem ný aðildarríki“ — þ.e. ríki sem eru á leið inn í Evrópusambandið — „byggi upp þekkingu og stofnanir til þess að geta rekið peningastefnu grundvallaða á stöðugu gengi eigin gjaldmiðils gagnvart evru og því efnahagsstefnu án sjálfstæðrar peningastefnu.“

Þetta segir Seðlabankinn. Er það það sem hæstv. fjármálaráðherra er alltaf að tala um? Og hversu mikið fylgi hafði hann til þess? Er það stefna ríkisstjórnarinnar? Hann verður að svara því skýrt hvort verið sé að framfylgja stefnu forsætisráðherra eða áhugamáli fjármálaráðherra sem er alltaf að koma hér upp og segja að það væri hugsanlega best. En það er enginn stuðningur (Forseti hringir.) við það í íslensku samfélagi.