146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

styrking krónunnar og rekstrarumhverfi fyrirtækja.

[11:23]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson, hér er óþarfi að tala um áhugamál þó að menn hafi aðra sýn á hvað sé landinu okkar fyrir bestu. Mig langar að eiga orðastað við ráðherra einmitt um mál þar sem við erum meira sammála, flækjustigið á íslenska gjaldmiðlinum. Styrking krónunnar er að veikja samkeppnisstöðu okkar. Útflutnings- og nýsköpunarfyrirtækin litlu og meðalstóru sem treysta á þekkingu, sköpun og hugvit eru að lenda í vandræðum. Mjög mörg þessara fyrirtækja munu búa til fjölbreytt og góð störf sem eru í takt við það sem framtíðin kallar á og geta glætt alla landsbyggðina lífi. Þessi fyrirtæki þekkja ekki landamæri. Þau eru eftirsótt úti um allan heim. Ef við búum þeim ekki gott umhverfi munu þau einfaldlega hverfa og við sitjum eftir með gömlu hefðbundnu atvinnuvegina. Ég veit að við hæstv. fjármálaráðherra erum sammála um að íslenska krónan skapar ekki nægilega góða umgjörð fyrir þessi fyrirtæki. Gríðarlega mikil gengisáhætta fælir erlenda fjárfesta frá. Ofan í kaupið ávaxta þessi fyrirtæki sig á allt of háum vöxtum. Í dag er launakostnaður mjög hár ef mælt er í gjaldmiðli eins og evru eins og við þekkjum.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort peningamálastefnan verði ekki að horfa á sitt svið víðar og horfa á alla kosti, ekki bara myntráðið af því að því fylgja hættur. Það er ekki tryggt með sama hætti og ERM II leiðir sem annar hv. þingmaður nefndi áðan. En mig langar að spyrja: Í stað þess að ráðast í lækkun hærra virðisaukaskattsþreps og missa 13,5 milljarða út úr ríkissjóði, hefði ekki verið nær að lækka tryggingagjaldið og koma til móts við þessi litlu (Forseti hringir.) og meðalstóru þekkingarfyrirtæki sem byggja á hugviti og verða fyrirtækin sem framtíðin okkar þarf að byggja á ef við ætlum ekki að vera í þessum skopparaleik upp og niður með gjaldmiðlinum okkar?