146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

málefni fylgdarlausra barna.

[11:30]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hér væri afar freistandi að spyrja ráðherra dómsmála um geðþóttastjórnsýsluákvarðanir sínar og ráðherrafúsk þegar kemur að vali á dómurum í glænýju dómstigi. En þar sem það mál er til umfjöllunar hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er rétt að leyfa þingnefndinni að klára sína vinnu og spyrja ráðherrann um önnur mál, mál er varða fylgdarlaus börn og afstöðu ráðherrans í málefnum þeirra.

Þótt það sé mín skoðun að við þingmenn eigum ekki að tala hér um mál einstakra einstaklinga er þó ekki annað hægt í kringum mál 16 ára drengs frá Marokkó sem kom hingað til Íslands í desember á síðasta ári en hefur verið synjað um hæli. Drengurinn er fylgdarlaust barn samkvæmt skilgreiningu en er hér ásamt eldri bróður sínum sem vill koma honum í öruggt skjól. Yngri drengurinn er í tvöfalt veikri stöðu sem fylgdarlaust barn annars vegar og vegna kynhneigðar sinnar hins vegar. Hér sem endranær vísa íslensk stjórnvöld blygðunarlaust í Dyflinnarreglugerðina sem grundvöll þess að senda bræðurna frá Íslandi í stað þess að afgreiða mál þeirra hér.

Eins og ítrekað hefur komið fram er ekkert í þeirri reglugerð sem hvetur til þess að Ísland sendi frá sér flóttafólk, hvað þá fylgdarlaus börn á flótta. Því er hér ekki um lagalega skyldu ríkisstjórnarinnar að ræða heldur frekar stefnu og áherslu ríkisstjórnarinnar.

Því spyr ég: Hver er raunveruleg afstaða dómsmálaráðherra í málefnum fylgdarlausra barna? Ætlar hún að styðja við fögur fyrirheit ríkisstjórnarinnar sem fram koma í stjórnarsáttmála hennar um að hafa mannúðarsjónarmiðin að leiðarljósi við afgreiðslu umsókna barna og fjölskyldna? Það væri gott að fá skýr svör því að svör um þessi mál hefur svo sannarlega skort úr munni hæstv. ráðherra.