146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

málefni fylgdarlausra barna.

[11:34]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Vegna orða hæstv. ráðherra um að ég hafi haft hér uppi gífuryrði í hennar garð vil ég halda því til haga að ég frábið mér aðdróttanir hæstv. ráðherra er vega að mínu skoðanafrelsi og að hún sé til þess fallin að dæma um hvort ég viti nokkuð um nokkur mál sem eru til umfjöllunar í þinginu. Ég frábið mér svoleiðis yfirlýsingar.

Varðandi spurninguna um málefni fylgdarlausra barna er ágætt að vita að eitthvað sé einhvers staðar í ferli og skoðun í ráðuneyti hæstv. ráðherra vegna þess að fyrir tveimur mánuðum síðan lagði ég fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra um fylgdarlaus börn sem koma hingað til lands til að sækja um alþjóðlega vernd. Á þeim tíma, þeim tveimur mánuðum sem liðið hafa, hefur ráðherra og ráðuneyti ekki séð sér fært að svara því sem m.a. kemur fram í þeirri fyrirspurn, hvort (Forseti hringir.) fylgdarlaus börn hafi verið send til annars viðkomulands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og hvort íslensk stjórnvöld gangi úr skugga um að fylgdarlaus börn sem (Forseti hringir.) komið er í veg fyrir að sæki um alþjóðlega vernd á Íslandi fái aðbúnað og málsmeðferð sem samræmist alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Þessu hefur ekki verið svarað í heila tvo mánuði.