146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

stjórn fiskveiða.

612. mál
[13:54]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hlutirnir ganga ekki alveg svona einfalt fyrir sig, hv. þingmaður. (GIG: Jú.) Þetta mál kom inn með afbrigðum á síðustu stundu. Ég tel hafa verið ábyrgðarhluta að hleypa því ekki í gegn vegna þess að þá værum við að koma í veg fyrir að fjöldi útgerða fengi sinn hlut í makríl og síld, þessar smærri útgerðir. En ef við ætlum að fara að gera breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu þyrfti það auðvitað að fara í umsagnarferli og þinglega meðferð. Við hljótum að taka það það alvarlega að við förum eftir þeim reglum sem þingsköp segja fyrir um og taka aðila inn til umsagnar og fjöllum um málið með faglegum hætti en gerum ekki bara svona „quick fix“ hér á Alþingi. Ég held að hv. þingmaður og Píratar vilji nú hafa allt uppi á borðinu og vanda sig í vinnubrögðum. Ég hef ekki heyrt annað hingað til.