146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

heilbrigðisáætlun.

57. mál
[14:21]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að þakka hv. velferðarnefnd og öðrum hv. þingmönnum fyrir góða vinnu við þetta forgangsmál okkar Framsóknarmanna á þessum þingvetri. Hér er um að ræða tillögu sem felur það í sér að hæstv. heilbrigðisráðherra er falið að halda áfram vinnu við gerð heilbrigðisáætlunar. En það sem greinir þessa tillögu frá mörgu öðru sem gert hefur verið hingað til er að hér á að horfa til landfræðilegra þátta, aldurssamsetningar íbúa, fjarlægðar á milli byggðarlaga, íbúaþróunar, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, sumarhúsabyggða. Hafa á samráð við notendur og fagfólk. Velferðarnefnd Alþingis skal upplýst um framgang málsins. Fjármálaráðuneytið og menntamálaráðuneytið skulu koma að áætlanagerðinni til að tryggja fjármagn og mönnun til málaflokksins og Alþingi skal upplýst um framgang málsins. Fyrst skal það vera í upphafi haustþings 2017 og svo með reglulegu millibili þar til verkefninu er lokið. En kærar þakkir, hv. þingheimur.