146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

heildstæð stefna í málefnum einstaklinga með heilabilun.

62. mál
[14:27]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er um aðra tillögu að ræða sem kemur frá fulltrúum minni hlutans í velferðarnefnd. Ég vil á sama hátt og áðan fagna sérstaklega góðri tillögu sem er mjög í anda þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin hefur markað sér og Alþingi, að við myndum okkur heildstæða stefnu í heilbrigðismálum og séum duglegri í að setja fram stefnur og horfa sömuleiðis skipulega á ákveðna þætti. Starfið innan ráðuneytisins höfum við stundum kallað „upp úr skúffunum“ því við erum líka að vinna að verkefnum sem til eru og hefur verið unnið að.

Með sérstakri áherslu á málefni aldraðra og heilabilaðra í þessu máli tel ég að við séum á skipulegan hátt að koma að stefnumörkun í einhverjum mikilvægasta málaflokki næstu ára og áratuga sem er málefni aldraðra. Ég fagna tillögunni sérstaklega, þakka kærlega fyrir hana og samstarfið við velferðarnefnd og hlakka til að halda samstarfinu áfram í innleiðingunni.