146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[14:35]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það hefur verið gleðilegt að sjá hversu mikil og góð sátt hefur verið um mörg mál í dag, en þetta verður ekki eitt þeirra. Mikið hefur verið rætt um það hversu gallað þetta mál er. Þrátt fyrir að við séum að uppfylla ákvæði EES-samningsins hefur þessu máli margsinnis verið slegið á frest einmitt vegna þess að það er ákveðin hætta, raunveruleg kerfisáhætta, við að samþykkja það eins og staðan er, eins og gjaldmiðillinn er, flöktandi þessa dagana. Ekki hefur verið nægilega vel búið um það að allir njóti góðs af tilhlýðilegu öryggi og að allir komist jafnt að. Það eru góðar breytingartillögur frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar í þessu máli. Ég vona að þær verði samþykktar til þess að reyna að bjarga því sem bjargað verður. En ég vona að þessu máli verði hafnað.