146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[14:36]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mig langar að fara yfir nokkrar staðreyndir sem koma fram í nýjustu útgáfunni af Fjármálastöðugleika frá Seðlabanka Íslands, með leyfi forseta, en þar segir:

„Tekjur og eignir íslenskra heimila eru í flestum tilfellum í íslenskum krónum og því er stór hluti íslenskra heimila óvarinn fyrir gjaldmiðlaáhættu … Greiðari aðgangur íslensku bankanna að erlendu lánsfé og batnandi kjör gætu leitt til þess að lánastofnanir freistist til að stækka efnahagsreikning sinn og að innlendir aðilar sem óvarðir eru fyrir gjaldmiðlaáhættu sæki í lægri vexti.“

Virðulegi forseti. Hvað þýðir þetta á mannamáli? Jú, áhættusækni er að fara að aukast. Hún er að fara að aukast í kerfinu okkar nema þingheimur samþykki breytingartillögu minni hlutans sem felur í sér að ekki sé hægt að veita þessi lán nema viðkomandi aðili hafi erlenda eign á móti.

Ég hvet ykkur því eindregið til þess að greiða atkvæði með fjármálastöðugleika en ekki á móti honum.