146. löggjafarþing — 77. fundur,  31. maí 2017.

lánshæfismatsfyrirtæki.

401. mál
[19:58]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil bara örstutt minnast á þau sjónarmið sem fram koma í nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar vegna afgreiðslu þessa máls í nefndinni. Við umfjöllun málsins kom fram að í frumvarpinu væri eins og í öðrum þeim sem lytu að eftirlitskerfinu byggt á tveggja stoða lausn Evrópusambandsins og Fríverslunarsamtaka Evrópu. Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin, ESMA, færi með eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar innan ESB auk eftirlitsstofnana innan hvers þjóðríkis. Aftur á móti liggur fyrir að ESMA mun að miklu leyti annast tæknilegan undirbúning allra ákvarðana þó að ESA verði formlegur ákvörðunaraðili.

Minni hlutinn telur að það framsal valdheimilda sem á sér stað með öllum þeim gerðum sem nú er verið að innleiða inn í íslensk lög og lúta að evrópsku eftirlitskerfi á fjármálamarkaði sé verulegt og vafi leiki á að svo umfangsmikið framsal valdheimilda standist stjórnarskrá. Þar með hef ég lokið útskýringu á atkvæðagreiðslu okkar.