146. löggjafarþing — 77. fundur,  31. maí 2017.

skattar, tollar og gjöld.

385. mál
[20:18]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um frumvarp sem er í raun samtíningur af ýmsum ákvæðum. Hv. þingmenn Vinstri grænna, þ.e. ég og Rósa Björk Brynjólfsdóttur sem eigum sæti í efnahags- og viðskiptanefnd, leggjum til breytingartillögur við þetta frumvarp sem miða að því að ákveðnir hlutar þess falli brott. Það eru þeir hlutar sem lúta að því að veita skattafslátt hernaðartengdri starfsemi hér á landi, hvort sem um er að ræða virðisaukaskatt, gistináttagjöld eða margháttuð önnur gjöld sem á að veita hernaðartengdri starfsemi sérstakan afslátt af. Í ljósi þess að við erum á móti veru okkar í Atlantshafsbandalaginu og á móti hernaðarbrölti því sem einkennir það bandalag leggjum við til að það sé ekki í ofanálag verið að veita hernaðartengdri starfsemi sérstakar skattaívilnanir. Ég vona að hv. þingmenn muni styðja þær breytingartillögur sem miða að því, og eru hér nokkrar, að fella brott þessar ívilnanir. Að öðru leyti styðjum við ýmsar tillögur í þessu frumvarpi sem er nokkurs konar bandormur.