146. löggjafarþing — 77. fundur,  31. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[20:59]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við Píratar erum ekki á móti jafnlaunavottun eða starfaflokkun, eins og málið blasir við okkur nú. Við erum hins vegar á móti skorti á gagnsæi. Hér er verið að setja lög sem benda á staðal sem ekki er opinn almenningi. Lög sem þannig eru eru ekki birt að mínu viti og geta af þeim sökum einum ekki talist gild lög. Þótt ekki sé á það bætandi fylgja þeim líka fyrirmæli frá hv. allsherjar- og menntamálanefnd um að ráðherrar fái í raun óútfylltan tékka um að gera einhvers konar díl við Staðlaráð Íslands um birtingu þessa staðals, díl sem velferðarráðuneytið mun væntanlega ekki geta hafnað þar sem það liggur náttúrlega fyrir að velferðarráðuneytið þarf á staðlinum að halda. Ég kalla það nú ekki góða samningsstöðu, frú forseti. Það eru okkur Pírötum mikil vonbrigði að stjórnarandstaðan, fyrir utan okkur, skuli taka þátt í þessu sem ég mundi kalla hrinu byrjendamistaka hjá hæstv. ráðherra. Málið er ekki fullbúið. Það verður að vinna það betur. Við segjum nei.