146. löggjafarþing — 77. fundur,  31. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[21:03]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta er sérkennilegt mál, þetta er hænufet á réttri leið til meira jafnréttis. Við Framsóknarmenn styðjum þá hugmynd. Þetta er hins vegar verulega vanbúið, engan veginn klárað. Kom ófullbúið. Og þó að það hafi lagast er þetta mál sem við hefðum átt að fresta og taka aftur upp að hausti. Það hefði verið skynsamlegast að byrja á Stjórnarráðinu eins og er reyndar ætlast til í frumvarpinu, að það sé gert á fyrstu tveimur árunum. Það hefði átt að duga. Reynslan af því hefði síðan átt að koma hér inn í nýju frumvarpi á árinu 2019, um hvernig hlutirnir ættu að vera.

Við Framsóknarmenn munum greiða atkvæði eftir eigin samvisku vegna þess að okkur finnst þetta sérkennilegt mál. (Forseti hringir.) Við styðjum jafnréttisbaráttuna, styðjum hænuskrefið, en málið er vanbúið að öllu leyti og mun koma hingað inn aftur og aftur (Forseti hringir.) áður en þessi lagarammi verður farinn að virka á almennum markaði.