146. löggjafarþing — 77. fundur,  31. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[21:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér hafa nokkrir þingmenn komið með ágætislíkingu í þessu máli en ég vil breyta henni aðeins. Þetta er ekki hænuskref eða skref í rétta átt, þetta er stökk yfir gjá. Gjáin er 100 millj. kr. djúp og það er ekkert víst að við náum að stökkva alveg yfir á hinn bakkann. Hins vegar komu gestir fyrir nefndina og útskýrðu fyrir okkur að þeir eru með önnur tól sem þeir nota sér til hjálpar til að greina hvort óútskýrður launamunur sé innan sinna fyrirtækja. Það er eins og ef við gengjum aðeins lengra niður stíginn sé þar brú sem býður okkur að komast yfir gjána. Í staðinn veljum við að taka langa stökkið, dýra stökkið. Fyrir mér er það ekki valkostur. Ég vil frekar ganga niður stíginn og taka brúna fyrst.