146. löggjafarþing — 77. fundur,  31. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[21:10]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um frumvarp sem er vissulega ekki endanleg lausn, ekki patentlausn, ekki svar við öllu. En launamunur kynjanna er samfélagsmein sem við höfum lifað við um aldir. Öll hreyfing til að vinna á þessu samfélagsmeini er til góðs, er jákvæð. Það getur vel verið að það þurfi að gera betur, að lagfæra frumvarpið í framhaldinu. Það er þá bara til bóta. Frumvarpið er skref í rétta átt, í mikilvæga átt, til að taka á því samfélagsmeini sem launamunur kynjanna er. Það að stjórnmálamenn erlendis skuli taka sérstaklega eftir því og nota til þess að lýsa ánægju sinni víkingaklappið sem er kannski það eina sem þeir þekkja frá okkur Íslendingum er eitthvað til að vera stolt af en ekki til að nota til að gantast með eða skopast að ráðherra fyrir. Ég fagna þessu og styð.