146. löggjafarþing — 77. fundur,  31. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[21:11]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil nú fagna því til að byrja með að í atkvæðaskýringum fái málið eiginlega meiri efnislega umræðu en það fékk við 2. umr. málsins í gærkvöldi og í nótt. (Gripið fram í: Nei.) Ja, alla vega talsvert fleiri sem taka þátt í umræðunni hér, (Gripið fram í.) sem er ágætt, ég fagna því.

Ég vil bara árétta hversu einfalt málið er í raun. Hér er búinn að vera í þróun jafnlaunastaðall frá árinu 2008 og hann er búinn að vera í framkvæmd undanfarin tvö, þrjú ár. Hér er lítið annað verið að gera en að lögbinda skyldu fyrirtækja til að vinna eftir honum. Staðallinn er vel þróaður, hann er reyndur í tilraunaverkefni. Löggjöfin sem slík er nokkuð einföld, um tímasetningu á lögbindingu og innleiðingu staðalsins. Það hefur margsýnt sig hjá þeim fyrirtækjum sem hafa nýtt hann að hann virkar mjög vel. Þess vegna er það mikið fagnaðarefni fyrir mig að við erum að ná þessum árangri. Þetta snýst ekki um egó ráðherra heldur einfaldlega um baráttuna um hvernig við útrýmum kynbundnum launamun.