146. löggjafarþing — 77. fundur,  31. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[21:21]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hæstv. félagsmálaráðherra var fljótur að sýna að það hvar hann stendur í stórum málum veltur algjörlega á því hvar hann situr. Meðal þeirra fyrstu til þess að gagnrýna þetta mál og hvernig að því var staðið var fyrrverandi vinnuveitandi hæstv. ráðherrans, Samtök atvinnulífsins. Ég tel ekki og geri ekki ráð fyrir að hæstv. ráðherra telji að það hafi verið gert vegna þess að Samtök atvinnulífsins séu andsnúin jafnrétti. Málið var ekki nógu vel unnið og ég er ekkert viss um að því hafi farið fram. Það er a.m.k. ljóst að það er stórgallað. Mér heyrist meira að segja að stjórnarliðar viðurkenna það. Þá veltir maður fyrir sér: Er það góðu markmiði til gagns að reynt sé að ná því með meingölluðu máli?

Ég verð að nefna það sérstaklega að það hefur komið mér skemmtilega á óvart hvernig Píratar hafa talað hér í dag. Ég verð eiginlega bara að hrósa hv. þingmönnum Pírata sem komu hér upp í röðum og eru rödd skynseminnar. [Hlátur í þingsal.] Þrátt fyrir að Píratar séu nú fjölbreytilegur hópur, virðulegur forseti, [Hlátur í þingsal.] þá eru þeir í þessu máli með allt á hreinu. Ég er sammála öllu því sem þeir hafa bent í þessari umræðu.