146. löggjafarþing — 77. fundur,  31. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[21:23]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er sammála þeim sem hér hafa talað um að öll skref í átt til aukins jafnréttis séu góð skref. Ég held að þetta sé skref í þá átt og styð því þetta frumvarp. Ég geng ekki með neinar grillur í höfðinu um að þetta sé einhver töfralausn sem breyti öllu, en öll skref í þessa átt eru góð skref.

Ég get ekki orða bundist í þessari umræðu vegna orða hv. þm. Bjarna Halldórs Janussonar sem fagnaði því að loksins værum við að taka umræðu um þessi mál. Kynjajafnrétti hefur verið ansi lengi á dagskrá stjórnmálanna, virðulegi forseti. Hér í þessum sal hafa verið stigin mörg góð skref í þá átt að útrýma kynbundnum launamun, að koma á fullkomnu kynjajafnrétti. Þó að við séum ánægð með það sem við erum að gera í dag skulum við ekki láta eins og ekkert hafi verið gert (Forseti hringir.) hér áður í þessum efnum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)