146. löggjafarþing — 77. fundur,  31. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[21:31]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Hér erum við að taka út lögbundna birtingu staðalsins sem var lögð til í áliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Í þessu atriði kristallast í raun best viðvaningsbragurinn sem er á öllu starfi ráðherrans í þessu máli af því að sú tillaga var unnin í samráði við ráðherrann. Við stóðum í þeirri meiningu að samráð hefði verið haft við Staðlaráð um að okkur væri heimilt að binda í lög að staðallinn væri aðgengilegur öllum. Svo reyndist ekki vera, komumst við að, eftir að ráðherrann hafði verið að munnhöggvast á tölvupóstþræði þar sem allir þingmenn voru dregnir inn í rifrildi hans og framkvæmdastjóra Staðlaráðs. Sem betur fer kom hæstv. ráðherra staðlamála, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, jafnréttismálaráðherra til bjargar, bar klæði á vopnin og sætti Staðlaráð. Þannig að nú hefst samningaviðræðulota á milli ráðherranna tveggja og Staðlaráðs sem ég vona að skili því í haust að ráðherrann kemur inn á þingið með þau tíðindi (Forseti hringir.) að Staðlaráð sé búið að opna staðalinn í sátt en ekki með einhverjum tuddaskap frá ráðherranum.