146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

veiting ríkisborgararéttar.

609. mál
[00:29]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég greiddi atkvæði í sambærilegu máli í desember síðastliðnum og lýsti því þar yfir við atkvæðaskýringu að ég myndi ekki aftur greiða atkvæði í þessum málum eins og þau eru lögð fyrir Alþingi. Ég var reyndar ekki í þeirri stöðu þá sem ég er í núna, þeirri ágætu stöðu að geta haft áhrif á málsmeðferðina. Ég hef lagt á það áherslu og bent á að verið er að veita ríkisborgararétt um 1.000 manns á hverju ári með stjórnsýsluákvörðun Útlendingastofnunar. Ég hef bent á að mér finnist þessi framkvæmd eins og hún er orðin í dag, með sjálfkrafa afgreiðslu Alþingis á einstaka umsóknum, ekki í takti við það jafnræði sem menn, eða að minnsta kosti ég, myndu vilja hafa í þessum málum.

Ég er í þeirri ágætu stöðu núna að geta jafnvel haft einhver áhrif á framkvæmd þessara mála til framtíðar. Ég hef í hyggju á næsta þingi að boða breytingar með frumvarpi um breytta framkvæmd á þessu af hálfu Útlendingastofnunar.