146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[00:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langaði aðeins til að rifja upp af hverju við erum með þetta mál til umfjöllunar núna og í hvaða stöðu það er komið. Við erum að veita lán til framkvæmda vegna Vaðlaheiðarganga. Um þá framkvæmd gilda lög um ríkisábyrgðir. Það er ekki útskýrt að ekki er innheimt áhættugjald af ríkisábyrgðinni eins og vera ber og fjármálaráðuneytið ákvað það en ekki Ríkisábyrgðasjóður, eins og kemur fram í áliti Ríkisábyrgðasjóðs. Ekki er rukkað áhættugjald eins og á að gera samkvæmt ríkisábyrgðum. Ekki er búið að setja upp afskriftareikning þannig að við vitum hver staða eignarinnar er eins og á að gera. Ekki er búið að setja upp afgreiðslugjald eins og á að gera. Það er augljóst að veðið dugar ekki fyrir framkvæmdinni. Það sem ég er að reyna að koma til skila er að taka verður rétt á þessari framkvæmd, það verður að taka hana yfir. Þetta er mjög einfalt: Mér finnst það mjög ábyrgðarlaust af þinginu að ætla að senda það inn á næsta kjörtímabil í staðinn fyrir að taka ábyrgð á því núna.