146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

376. mál
[00:45]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. umhverfis- og samgöngunefnd hefur unnið töluvert í þessu máli, samt kom í ljós á lokametrunum að það þurfti aðeins að bæta það. Mín skoðun er sú og ég vildi deila henni með ykkur af því að ég veit að þið bíðið spennt eftir því að vita hvað mér finnst um flest mál, [Hlátur í þingsal.] að þetta er hluti af því vandamáli sem við hv. alþingismenn glímum við þegar er verið að innleiða EES-tilskipanir. Við þurftum að ganga mjög eftir því að fá að vita, með miklum eftirgangsmunum, nákvæmlega hvers væri krafist í umræddu máli að færi inn af hálfu EES í tengslum við tilskipunina og hvað væri einhvers konar heimatilbúin viðbót eða hvort verið að fara einhverjar sérstakar leiðir hér. Í raun lýtur síðasta viðbótin í málinu að því að það var aðeins á huldu hvernig því væri háttað.

Ég veit að það hefur farið fram vinna og er í gangi vinna á vegum þingsins varðandi þessi mál. Ég vil bara ítreka það að við hv. þingmenn þurfum að fá betur að vita þegar kemur að innleiðingum EES-tilskipana hvað er nákvæmlega fólgið í þeim og hvað kemur annars staðar frá úr ráðuneytum og frá hv. stjórnarmeirihluta.