146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[00:53]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ef þessi fimm ára fjármálaáætlun verður samþykkt óbreytt hefur það afar slæmar afleiðingar í för með sér, einkum fyrir þá sem þurfa á heilbrigðiskerfinu að halda, fyrir öryrkja og fatlað fólk, fyrir námsmenn og ungar fjölskyldur. Ástand vega og löggæsla mun halda áfram að versna með tilheyrandi óöryggi. Við í Samfylkingunni leggjum fram breytingartillögu við stærstu velferðarmálin sem jafnframt verða verst úti ef stjórnarliðar fá að ráða. Við leggjum einnig fram breytingartillögur á tekjuhliðinni sem stuðla að réttlátara skattkerfi, sporna gegn auðsöfnun á fárra hendur og gefa sanngjarnar tekjur af auðlindum þjóðarinnar. Við munum styðja aðrar breytingartillögur við áætlunina en greiða atkvæði gegn henni óbreyttri.