146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[00:56]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Alvarlegar athugasemdir fjármálaráðs, skortur á gagnsæi, grunngildamiðuð vinnubrögð ekki höfð að leiðarljósi, ósamræmi í tölulegri framsetningu, skortur á samspili spágerðar og stefnu, áherslu á muninn á lýsingu og greiningu gagna vantar, engin tilraun gerð til sveifluleiðréttingar, einsleit líkön, ekki tekið tillit til margföldunaráhrifa, engin kostnaðar- og ábatagreining, engin útskýring á þróun í vexti fjárfestinga, enginn rökstuðningur með fullyrðingum um sparnaðarhneigð, spenna í hagkerfinu vanmetin og spá um mjúka lendingu gegn fyrri reynslu af lokum hagvaxtarskeiða á Íslandi, engin sviðsmyndagreining á helstu áskorunum, svo sem vexti á ferðaþjónustu, gengi krónunnar, spennu á vinnumarkaði, verðhækkunum á húsnæðismarkaði og áhrifum öldrunar á heilbrigðisþjónustu og umönnun.

Upplýsingar vantar um afkomu hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu svo hægt sé að ganga úr skugga um að hún uppfylli markmið samkvæmt fjármálastefnu, fjármálaáætlun föst í viðjum fjármálastefnunnar, lækkun virðisaukaskatts gengur gegn grunngildinu um stöðugleika, afgangur af rekstri hins opinbera endurspeglar ekki endilega aðhaldsstig opinberra fjármála, skortur á tölulegum upplýsingum, upplýsingum um tímasetningar helstu fjárfestinga. Ótrúverðugt er að markmið um jákvæða afkomu (Forseti hringir.) muni nást ef hagvöxtur næst ekki. Sveitarfélög hafa þurft að bera þungann af sjálfvirkri sveiflujöfnun. Ítarlega umfjöllun um eignir hins opinbera vantar. Fjárveitingar eru ekki sundurliðaðar í rekstri og fjárfestingu. Ekki er útskýrt hvernig (Forseti hringir.) mæta eigi (Forseti hringir.) uppsafnaðri fjárfestingarþörf og skuldir opinberra fyrirtækja eru hærri en (Forseti hringir.) þær eiga að vera.