146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[01:00]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Fjármálaáætlun og fjármálastefna voru sögð mikilvægustu mál ríkisstjórnarinnar hér í upphafi. Nú undir lokin er talað um leiðarljós og áætlanir sem u.þ.b. eigi að fara eftir. Fjárlögin í haust verða erfið. Það eru allir sammála um það í þessum sal, og fjármálaráð og miklu fleiri, að framsetning, greining — og að ekki sé verið að standa hér við lagalegar skuldbindingar um opinber fjármál, hvernig leggja á fram þessa áætlun. Það eru allir sammála um það. En það er ekki það versta. Það versta er að þessi fimm ára áætlun svarar ekki þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í innviðauppbyggingu. Þessi fjármálaáætlun svarar ekki þeim væntingum sem menn hafa haft eftir kosningar sl. haust og með nýrri ríkisstjórn. Hér skortir fé í uppbyggingu í heilbrigðismálum, menntamálum, samgöngumálum og mörgum öðrum málaflokkum. Við munum ekki greiða þessari áætlun atkvæði okkar. (Forseti hringir.) Við leggjum til að hún verði felld og önnur áætlun og betri sett í staðinn. Það er til önnur leið.