146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[01:19]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ýmislegt sem kemur á óvart við þessa fjármálaáætlun og ýmislegt sem kemur ekki á óvart. Það kom mér vissulega á óvart hversu kinnroðalaust stjórnmálamenn eru tilbúnir að standa frammi fyrir alþjóð örfáum mánuðum eftir kosningar og segja: Ég ætla að svíkja öll mín kosningaloforð. Það kemur ekki á óvart hvernig fjármálaáætlunin lítur út af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Þetta er hægri stefna Sjálfstæðisflokksins sem keyrði samfélagið út á bjargbrún fyrir örfáum árum sem allir eru búnir að gleyma. Nú á að spýta í aftur og gleyma þeim sem minnst mega sín. Það kemur ekki á óvart að Viðreisn skuli taka undir þá stefnu en það kemur mér svo sannarlega á óvart að Björt framtíð — flokkur sem talaði ekki beint fyrir því á síðasta kjörtímabili að skattstefna hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar, væri svo fullkomin að henni mætti í hvergi hvika — skuli standa að þessari ályktun og verða ber að því að svíkja öll sín kosningaloforð á einu bretti. Það kemur mér svo sannarlega á óvart. (Forseti hringir.) Og það er kannski táknrænt að ekki einn einasti þingmaður þess flokks er að hlusta á ræðu mína hér.