146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[01:21]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að ríkisfjármálaáætlunin er vanreifuð. Það skortir allt gagnsæi og alla framtíðarsýn. Ég vil gera sérstaka athugasemd, eins og ég hef gert áður hér, við það hversu illa háskólastigið er fjármagnað. Það er með algjörum ólíkindum að allir þessir flokkar lofuðu auknu fjárframlagi til háskólastigsins. Allt þetta er svikið. Það er með ólíkindum að hér komi fram ný öfl, boðberar nýrra tíma, og hvað gera þau um leið og þau setjast í ríkisstjórn? Þau svíkja það sem þeir sögðu rétt fyrir kosningar.

Einnig finnst mér mjög merkilegt að við sjáum ekkert af þessu fólki koma hér í pontu og fara yfir stöðuna, sýna okkur hver framtíðarsýn þess er, hvaða metnað það hefur fyrir land og þjóð. Breytingarnar á virðisaukaskattinum eru illa undirbúnar, allt samráð skortir og ég er nokkuð viss um að við munum sjá breytingar á þessu í haust. Við munum sjá verulegar breytingar vegna þess að líklega verður ekki meiri hluti fyrir þessu.

Vegna þess hversu (Forseti hringir.) vanreifað málið er verður þingflokkur Framsóknarflokksins á rauða takkanum.