146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[01:24]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það eru ekki margar stjórnarliðar sem mæra þessa fjármálaáætlun. Það er kannski ekki skrýtið. Hún er vond fyrir marga, hún er vond fyrir landsbyggðina. Mér finnst allt í lagi að halda því til haga því að hún er oft afgangsstærð í umræðunni, fjármálaáætlunin kemur mjög illa út gagnvart landsbyggðinni. Það er skorið niður í vegaframkvæmdum, það á ekki að auka framkvæmdir eins og menn reiknuðu með. Samgönguáætlun er ekki fylgt eftir, það er daðrað við einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, einkavæðingu í menntakerfinu og sölu eigna. Þetta er stórhættuleg þróun með þessa hægri stjórn við völd, hvernig menn ætla að brjóta niður innviðina. Það sem á að gera á að reyna að koma í hendur á auðmönnum í þessu landi, það er bara þannig. Það er leynt og ljóst verið að útvista og koma öllu sem telst samfélagslegar eignir og er í rekstri samfélagsins til einkaaðila. Þetta er vont mál sem þarf að fella.