146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[01:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er augljóst að þau framlög sem ríkisstjórnin gerir ráð fyrir til samgangna, fjarskipta og löggæslu nægja engan veginn til að mæta aðkallandi þörf. Ástand vegakerfisins er mjög bágborið, eins og landsmenn þekkja. Þar skortir bæði viðhald og nýframkvæmdir og álag er stöðugt meira eftir því sem ferðamönnum fjölgar, einkum á ákveðnum svæðum á landinu. Það verður að bregðast við strax með auknum fjárframlögum. Álag á lögreglu vegna fjölgunar ferðamanna hefur aukist um allt land og þjónusta við íbúa sem ekki varðar líf og limi fólks, situr á hakanum. Þessi breytingartillaga gerir ráð fyrir að samgönguáætlunin sé fjármögnuð, fjarskiptamálin verði í lagi um allt land og að löggæslan verði efld.