146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[01:42]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Stefna ríkisstjórnarinnar í menntamálum lýsir alveg ótrúlegri skammsýni einmitt nú þegar við stöndum frammi fyrir samfélagsbreytingum þar sem atvinnulíf mun örugglega taka stakkaskiptum á næstu árum. Með aukinni sjálfvæðingu og gervigreind mun stór hluti starfa hverfa og ný verða til. Eina raunhæfa leiðin til að mæta þeirri áskorun er að efla skólastarf og aðlaga það nýjum veruleika. Stefna ríkisstjórnarinnar er önnur. Henni mótmælir Samfylkingin harðlega og leggur fram breytingartillögur sem styðja bæði framhaldsskólastigið og háskólastigið. Ef fjárframlög til þessar málasviða verða samþykkt óbreytt er það ávísun á að Ísland dragist aftur úr öðrum þjóðum og að samkeppnisstaða landsins versni ár frá ári.