146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[01:45]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Almenningur hefur kallað eftir því með skýrum hætti að stjórnvöld styrki opinbera heilbrigðiskerfið með myndarlegum hætti og allir stjórnmálaflokkar lofuðu betra heilbrigðiskerfi í kosningabaráttunni. Það voru mikil vonbrigði að sjá tillögur ríkisstjórnarinnar til heilbrigðismála í fjármálaáætluninni. Þær eru hrein svik við kjósendur og fólkið í landinu. Samfylkingin leggur fram breytingartillögur um aukin framlög til sjúkrahúsþjónustu, til heilsugæslunnar um allt land og til að lækka enn frekar greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Fyrirhyggjuleysi stjórnvalda í málefnum aldraðra er sannarlega einnig ámælisvert þegar þjóðin er að eldast og þörfin eykst fyrir hjúkrunarrými í svipuðum takti. Samfylkingin gerir einnig breytingartillögu til að mæta allra brýnustu þörfinni á því sviði. Ég vil hvetja hv. þingmenn til að gera þessar breytingar í það minnsta á þessari fjármálaáætlun sem er öll til skammar. Hún er ógegnsæ en nægilega gegnsæ til að sýna okkur að (Forseti hringir.) framlög til heilbrigðiskerfisins eru algerlega óásættanleg. Við verðum að gera breytingar.