146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[01:51]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ríkisstjórnin virðist reyna að gera allt sem hún getur til að gera ungum barnafjölskyldum erfitt fyrir. Það er dregið úr húsnæðisstuðningi og vægi barnabóta sem eru helstu tækin sem stjórnvöld geta nýtt til að mæta láglaunafólki og fólki með meðaltekjur. Það hefur stöðugt hallað á ungar barnafjölskyldur í landinu á undanförnum árum. Til að rétta þá stöðu eigum við að leita til Norðurlanda eftir fyrirmyndum, ekki til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eins og ríkisstjórnin vill gera. Neyðarástand það sem ríkir á fasteignamarkaði kallar á aðgerðir stjórnvalda. Þar er skortur á framboði á húsnæði. Stór leigufélög sem rekin eru í hagnaðarskyni og fjöldi íbúða sem leigðar eru ferðamönnum magna vandann. Breytingartillögur Samfylkingarinnar bæta stöðu barnafjölskyldna og mæta húsnæðisvanda, þó að gera þurfi enn betur í þeim efnum, því þar er ekki bara um velferðarvandamál að ræða (Forseti hringir.) heldur stórt efnahagsvandamál.