146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[01:52]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Í ljósi stöðunnar í húsnæðismálum er ekki hægt að segja að í ríkisfjármálaáætlun birtist fyrirheit um að takast á við þessa stöðu því að draga á jafnt og þétt úr framlögum ríkisins á tímabilinu. Ekki nóg með það heldur eru viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta látnar standa í stað og fjölskyldum sem njóta þeirra stórfækkar og tekjujöfnunaráhrif kerfisins fara þverrandi og auka enn á erfiðleikana, sérstaklega yngra fólks. Það er heldur ekki hægt að sjá í þessu hvernig áformum um húsnæðisbætur til tekjulægri leigjenda verður háttað eða hvort þær taki einhvers konar fjárhagslegum breytingum eða verði frystar. Ég get ekki ímyndað mér annað en að þetta séu gríðarleg vonbrigði fyrir unga fólkið sérstaklega og barnafjölskyldur sem samkvæmt rannsóknum — og við skulum ekki gleyma því — hefur ekki haft það jafn skítt mjög lengi, mun verra en unga kynslóðin fyrir tæplega 30 árum. Virðulegi forseti. Þetta eru frekar dapurleg tíðindi fyrir unga fólkið inn í framtíðina.