146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[01:54]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Breytingartillögur Samfylkingarinnar á tekjuhlið áætlunarinnar stuðla að réttlátara skattkerfi og auka jöfnuð. Þær eru um að arður af auðlindum þjóðarinnar og eignum renni í auknum mæli í ríkissjóð, um stóreignaskatt, stighækkandi fjármagnstekjuskatt og þrepaskiptan tekjuskatt lögaðila, að almennt þrep virðisaukaskattsins verði óbreytt og um hert skatteftirlit. Við teljum að það þurfi að endurskoða skattkerfið allt með það að markmiði að auka jöfnuð í samfélaginu og gera það réttlátara. Þessar breytingartillögur nægja ekki til þess en eru til bóta og gefa tekjur til að styrkja heilbrigðiskerfið, menntakerfið og vegina sem svo rík þörf er fyrir og almenningur kallar eftir.