146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[01:58]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við Vinstri græn höfnum þessari fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Hún stendur ekki undir þeim væntingum sem voru gefnar fyrir kosningar, stendur ekki undir neinni raunverulegri framtíðarsýn fyrir þetta samfélag. Hún boðar algert metnaðarleysi í menntamálum, heilbrigðismálum, kjörum þeirra hópa sem verst standa og í húsnæðismálum. Hún byggir á óljósum forsendum sem hafa verið harðlega gagnrýndar af óháðu fjármálaráði og hún er í bullandi ósætti hjá sjálfum meiri hlutanum. Ég spái því að þegar kemur að afgreiðslu næstu fjárlaga muni ekki standa steinn yfir steini í því sem hér er verið að samþykkja af hv. þingmönnum stjórnarliðsins af engri sannfæringu. Það er ekkert vit í því að samþykkja þessa fjármálaáætlun. Eina vitið er að hafna henni því að hún heldur ekki. Hún heldur ekki vatni fyrir samfélagið okkar og heldur ekki einu sinni innbyrðis rökum.