146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[02:00]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ekki er nóg með að þessi fjármálaáætlun sé dálítið sérkennileg heldur blikka allar atkvæðatöflur, og þar af leiðandi viðvörunarbjöllur, og gefa merki um að skynsamlegt sé að fella þessa fjármálaáætlun. Við Framsóknarmenn leggjum til að ríkisstjórnin snúist nú á sveif með okkur í minni hlutanum og taki þetta til sín og endurskoði þetta. Sá útgjaldarammi sem hér er áætlaður mun hvergi standa undir þeim væntingum sem menn bíða eftir í heilbrigðiskerfi, menntakerfi, samgöngum eða löggæslu, hvað þá í innviðum margra þátta víða úti um land. Nú er alveg kjörið tækifæri, ágæta ríkisstjórn, til að fara í það akkúrat núna þar sem engin þensla er og nota tækifærið til að byggja Ísland upp allan hringinn, þar sem það verður möguleiki fyrir fólk að búa (Forseti hringir.) og eiga gott líf um langa framtíð. Því að það er gott að búa á Íslandi.