146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[02:07]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Það er rétt sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson nefnir, hérna er verið að samþykkja fjármálaáætlun af þingmeirihluta sem hefur minni hluta atkvæða á bak við sig. Það er bara eðlilegt að nefna það. Það er ákveðið lýðræðislegt prinsipp í heiminum að þú þurfir að hafa atkvæði meiri hluta landsmanna á bak við þig. Því er ekki fylgt í okkar kerfi og það geta komið upp svona stöður. Þessi fjármálaáætlun er samþykkt þrátt fyrir að hún fylgi ekki lögum um opinber fjármál sem segir til um fjármálaáætlunina, hvernig hún eigi að vera o.s.frv. Því er ekki fylgt. Það hefur verið viðurkennt hér í þinginu af fjármálaráðherra og formanni fjárlaganefndar, af þeim sem hafa lofað að þetta skuli ekki gera aftur, að þetta verði lagað næst. En þetta er staðan sem er uppi. Meiri hluti þingmanna sem er með minni hluta kjósenda á bak við sig er að samþykkja ramma utan um fjárlög sem á að senda ríkisstjórnina með (Forseti hringir.) í trássi við lög um hvernig eigi að gera þetta.

Þetta eru vinnubrögðin. Þetta eru staðreyndir.