146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[11:32]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Ég biðst bara afsökunar, ég er ekki alveg undirbúinn. Maður er búinn að vera hlaupandi hérna á milli síðustu tvo daga að reyna að skilja þetta mál. Við höfum ekki náð að reifa öll gögnin.

Það er alveg ljóst sem sérfræðingarnir sögðu sem komu fyrir nefndina. Það er enginn vafi í mínum huga miðað við það sem sérfræðingarnir sögðu, að þetta gengur gegn dómafordæmi gegn Árna Mathiesen um hvernig rökstuðningur ráðherra var. Og hv. framsögumaður málsins í nefndinni, Birgir Ármannsson, „freimaði“ þetta þannig innan nefndarinnar að þetta snerist ekki um málsmeðferðina — nei, þ.e. það sem þetta snerist um fyrir okkur í nefndinni væri hvort rökstuðningur ráðherra væri fullnægjandi. Rökstuðningur ráðherra, hvers vegna þarf hann að vera fullnægjandi? Jú, út af því að það er verið að meta hæfi. Fyrir hverju? Fyrir hæfi dómara sem við ætlum að skipa í þessu landi. Rökstuðningur þeirra matsnefndar, dómnefndar, sem þarf að meta það, það eru reglur um hvernig það á að vera. Fyrst lög, svo reglur frá ráðherra, svo starfsreglur nefndarinnar, og ráðherra fyrir fram sem vissi alveg hvað var að fara að gerast. Ef hún var ekki ánægð með hvernig mat og vægi ætti að vera á þessum hlutum, faglegt matsferli, gat hún gert breytingu sjálf. Hún gat lagt til breytingu á reglunum áður en farið var í þetta ferli. Svo ekki sé verið að kasta ryki í augu almennings með það. En hún ákveður að bíða eftir því að þetta komi allt saman fram og segja: Ja, nei, ég er ekkert svo hrifin af þessu mati frá þeim. Nei, ég ætla ekkert að fara í eins faglegt ferli með það og þau. Ég ætla bara að leggja fram mitt. Og svo fyrir nefndinni hefur ráðherra verið margsaga og missaga um ástæður fyrir þessu, hvers vegna hún meti vægið svona. Þetta er allt saman mjög ófaglegt ferli. Þetta þarf að rannsaka og þetta verður rannsakað.