146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[12:15]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Ráðherra var að yfirgefa þingsalinn. Getur forseti vinsamlegast beðið ráðherrann að vera viðstaddan umræðuna? Hún er að skipa 15 dómara í nýtt dómstig og fer á svig við mat hæfnisnefndar við skipun fjögurra þeirra. Ókei, takk, hún er mætt á svæðið.

Í fyrstu ræðu langar mig að fara yfir sviðsmyndir. Hvað er hægt að gera í stöðunni núna? Hérna erum við, hérna stöndum við og sitjum. Landsmenn fylgjast með. Það er gerlegt. Það sem er í veði er traust á dómskerfi landsins. Það er ekkert grín. Hvaða sviðsmyndir eru í stöðunni? Sviðsmyndin sem stjórnarmeirihlutinn og ráðherra virðast vilja velja. Forsætisráðherra var teflt fram til að styðja dómsmálaráðherra í málinu, forseta þingsins var beitt sem vildi halda starfsáætlun, hv. þm. Birgi Ármannssyni teflt fram sem sem framsögumanni í málinu, þeirra færasta manni. Hann er mjög fær í því að finna sér leið fram hjá málum og við getum farið yfir það. Við skulum segja, svo hann njóti algjörlega sannmælis og svo við séum ekki með nein gífuryrði: Hann er mjög fær í sínu fagi.

Ef við förum þá leið að málið er keyrt í gegnum þingið og ráðherra fer, án þess að vera með fullkominn rökstuðning við mál sitt, á svig við ákvörðun nefndarinnar sem skipuð er að lögum, römmuð inn með reglum frá ráðherra, setur sér starfsreglur um faglegt mat. Málið er keyrt í gegnum þingið. Meiri hluti Alþingis samþykkir það þrátt fyrir að hafa haft tvo daga til að vinna í því á meðan ráðherra hafði tvær vikur samkvæmt lögum — ráðherra þarf samkvæmt lögum tvær vikur til að meta stöðuna. Er það faglegt? Á ég að leggja til eitthvað annað?

Þingið fær tvo daga. Þetta er það sem þau vilja. Ef þessi ákvörðun ráðherra, sem fer mögulega á svig við lög, eins og við höfum heyrt í nefndinni, ef málið er keyrt í gegnum þingið á tveimur dögum á meðan ráðherra hafði tvær vikur þá er framhaldið að rannsaka þarf það ferli og þær ákvarðanir sem ráðherra tók. Það er heimilt samkvæmt 8. lið 1. mgr. 13. gr. þingskapalaga. Þar segir að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi eftirlit með því að kanna ákvarðanir og verklag ráðherra. Það er alveg ljóst að við þurfum að kanna það. Á þessum tveimur dögum hafa sérfræðingar sem komið hafa fyrir nefndina sagt okkur að verklag ráðherra stangist á við dómafordæmi. Þeir hafa bent okkur ítrekað á dómafordæmi, að það þurfi að kanna það. Ókei, kannski er það bara ekki þannig, en á þessum tveimur dögum höfum við fengið ábendingar um þetta og ljóst að við þurfum að kanna það. Það verður gert. Það þarf ekki nema þrjá þingmenn til þess. Minnihlutaþingmenn í nefndinni hafa lýst sátt við það ferli. Ég á eftir að fá það formlega staðfest að það sé örugglega þannig.

Jafnframt kannar nefndin málið. Menn eru byrjaðir, þeir fjórir sem voru hlunnfarnir hafa talað um að fara í mál. Sjáið hvað er fram undan. Ef þetta verður þvingað í gegn núna á þessum forsendum verður gerð rannsókn á ráðherra strax. Svo fara að detta inn ákærur á ákvörðun ráðherra og þá getur það gerst aftur eins og gerðist síðast, þegar Árni Mathiesen var dæmdur fyrir að hafa ekki farið að lögum hvað þetta varðar, og algjört vantraust verður á þetta dómstig og þessa fjóra ráðherra. Það er það sem við stöndum frammi fyrir. Vantraust á Alþingi fyrir að fara svona með málið og þvinga það í gegn. Vantraust á dómstóla. Það er það sem það kostar.

Það eru nokkrar aðrar sviðsmyndir sem eru ekki jafn fýsilegar. Ég get nefnt þær í síðari ræðu, en síðan kemur sviðsmyndin sem er langbest. Já, ráðherra þurfti að leggja málið fram innan tveggja vikna. Hún hafði tvær vikur en lagði það inn þegar aðeins tveir dagar voru eftir af þinginu miðað við starfsáætlun. En Alþingi þarf ekki að taka ákvörðun um skipun fyrr en 1. júlí. Við höfum heilan mánuð og þá gefst nefndinni ráðrúm til að vinna málið betur. Það má kalla málið til nefndarinnar hvenær sem er, og ég legg það til, hæstv. forseti, að málið verði bara kallað til nefndarinnar og við vinnum það betur, getum farið yfir öll gögn þess, fengið á hreint hvort ráðherra sé að brjóta lög með ákvörðunum sínum og vinnureglum. Ef þetta fólk verður skipað núna verður ekki aftur snúið, þá sitja þessir dómarar þrátt fyrir að dæmt verði að þeir hafi verið skipaðir ólöglega. Það skapar vantraust á dómskerfi landsins, það skapar vantraust á Alþingi, og með réttu. Við viljum traust en við viljum að traustið sé réttmætt.

Hvað kostar þetta? Þetta kostar bara það að við förum ekki í sumarfrí núna. Það kostar líka það að ráðherrann fær líklega ekki þá dómara sem hún vill af því að hún og rökstuðningur hennar í þessu máli hefur verið margsaga og missaga. Ekki allur rökstuðningur, fyrirgefið, rökstuðningur fyrir þeim aðilum sem hún hefur komið að.

Líklegasta sviðsmyndin er að þetta verði keyrt í gegn. Það kostar traust á dómskerfinu, það kostar traust á Alþingi. Eða þá að við tökum málið aftur í nefndina og höldum áfram að vinna það. Við þurfum ekki að samþykkja það fyrr en 1. júlí. Þetta er það sem við höfum í höndunum.

Í stjórnarsáttmálanum segir að unnið verði „að því að byggja upp traust á grunnstoðum samfélagsins, meðal annars Alþingi og dómstólum“.

Ég skal segja ykkur hvað ég held að sé í gangi. Miðað við það að ráðherra kemur fyrir nefndina og segir: Já, ég var ekki hrifin af þessu mati frá hæfnisnefndinni vegna þess að vægi dómara var ekki nógu mikið. Við vorum með blaðið fyrir framan okkur þar sem stóð hvernig þetta vægi var metið og þar kom fram varðandi dómarareynsluna, og við bentum ráðherra á það: Já, en heyrðu, hvers vegna tókstu þá ekki þann út sem var í 12. sæti í staðinn fyrir þann sem var í 7. sæti? Þú tókst út mann með mikla dómsreynslu, meira en aðrir fyrir neðan, og settir inn aðila sem voru með minni dómsreynslu að einhverju leyti. — Já, nei, nei, nei, ég horfi líka til lögfræðireynslu.

Já, en sá sem þú settir inn er mjög litla lögfræðireynslu og minni en aðrir sem þú tekur út. Þetta er ekki fullnægjandi rökstuðningur ráðherra, hún er margsaga og missaga. Allt bendir til þess að þessi ákvörðun sé tekin á gerræðislegum forsendum. Ráðherra segir: Já, við verðum að hefja okkur yfir þessi excel-skjöl. Excel-skjöl? Það er mat. Þú leggur ákveðinn grundvöll fyrir mati þínu, þú leggur ákveðinn faglegan, hlutlægan, málefnalegan grundvöll fyrir mati þínu. Ef menn geta ekki tekið ákvörðun um mat á hæfi dómara án þess að hefja sig yfir excel-skjölin og tölur, tölur sem eru til þess að byggja grundvöll fyrir faglegu, hlutlausu mati til að koma í veg fyrir gerræðislegar ákvarðanir, þá getum við bara varpað út í hafsauga öllum þessum „indexum“ sem við styðjumst við. Þetta er með öllu óforsvaranlegt þegar maður er að mæta hæfi dómara. Allt bendir til þess, miðað við þær upplýsingar, þá málsvörn sem verið hefur í gangi, að ákvörðunin sé gerræðisleg.

Hvers vegna taka menn gerræðislega ákvörðun? Jú, það er bara eins og með valdaskipanir almennt, menn vilja fá sitt fólk. Er það vegna þess að það getur átt hönk upp í bakið á þeim o.s.frv.? Jú, jú, alveg eins, en það þarf ekki einu sinni að vera svo. Við horfum á skipanir dómara í Bandaríkjunum, í hæstarétt, hvernig slagur það er. Menn reyna að passa upp á að fá manneskju sem er með sams konar heimssýn og þeir. Heimssýn dómara hefur áhrif á hvernig dóma hann fellir. Að sjálfsögðu er það freistnivandi fyrir ráðherra að taka gerræðislega ákvörðun við skipun dómara.

Ætli ráðherra hafi látið freistast? Hvaða fólk er þetta sem hún ætlar að skipa og taka umfram aðra án þess að hafa rökstutt það, öðruvísi en út frá eigin forsendum? Já, ég tek dómarareynsluna. Já, en bíddu, þá hefði þetta átt að færast aðeins öðruvísi til. — Já, nei, nei, nei, ég tek líka lögfræðireynslu. Hér er bara bætt inn hlutum.

Svo er það kynjajafnréttið. Já, en þá þarftu bara að færa til eina konu til að uppfylla það. Já. Hvers vegna færir þú þá ekki fleiri konur til? Ef það er dómarafordæmið hefðu fleiri konur átt að færast til. Það bendir allt til þess að þetta sé gerræðisleg ákvörðun.

Ætli ráðherra hafi freistast til að skipa aðila sem eru með svipaða heimsmynd eða ekki á faglegu forsendunum, ekki samkvæmt hæfni heldur samkvæmt heimsmynd? Það er freistnivandi þarna, raunverulegur freistnivandi. Eitt sem við getum gert til að skoða það er að kanna hverjir eru skipaðir. Það er nokkuð sem blaðamenn ættu að fara svolítið nákvæmlega í, tengingar þeirra aðila sem eru skipaðir. Það skiptir máli. Við vorum að setja okkur siðareglur á Alþingi m.a. um hagsmunatengsl og tengingar. Við þyrftum að gæta okkar gagnvart þeim, að sjálfsögðu, því að þau skapa ákveðinn vanda þegar fólk þarf að taka ákvarðanir, það er ákveðinn freistnivandi.

Hvaða aðilar eru þetta? Nú, einn aðili sem færður er upp er eiginkona þingmanns. Það er einn aðili. Það sjá allir af þeim gögnum sem birt hafa verið. Það er einn aðili. Það þarf ekki að vera að þetta hafi verið gerræðisleg ákvörðun, en sú kona var færð upp og rökstuðningur ráðherra stemmir ekki við það, alla vegana miðað við mat hæfnisnefndarinnar, og rökstuðningur ráðherra er langt frá því að vera jafn afgerandi og matsnefndarinnar, hæfnisnefndarinnar. Hún er búin að vera margsaga í því og ég er ekki kominn með fullkomlega heildstæða mynd af því hvers vegna ráðherra tekur þessa ákvörðun, breytir út frá ákvörðuninni.

Ég sé að sumum finnst eitthvað óþægilegt að ég nefni það að aðili sem valinn er í Landsrétt mögulega vegna gerræðislegrar ákvörðunar ráðherra, sé eiginkona þingmanns. Er það eitthvað óþægilegt? Svona hagsmunaárekstrar eru einmitt teknir fyrir og alþjóðasamfélagið ítrekaði sáttmála og tilmæli um það. Og líka GRECO, sem er bandalag gegn spillingu sem við erum aðilar að. Þar er Alþingi ítrekað bent á að setja sér siðareglur, koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Hverjir aðrir eru þarna sem færðir eru upp um 15 sæti eða 17, einn aðili úr 30. sæti færður upp? Það er eiginmaður fyrrverandi samstarfsfélaga dómsmálaráðherra, aðili sem sinnti því að — ég hef bara lesið það í fréttum, ég þekki ekki fólk, ég veit ekki svona hluti, þessi tengsl og allt það. Það er kannski minn akkillesarhæll í pólitík, ég þekki það ekki. En þarna las ég í Kjarnanum að aðili sem færður er upp um ein 15–17 sæti, og takið eftir að listinn er ekki nema 32 sæti, aðili í 30. sæti er færður upp í 15 manna hópinn. Það er aðili sem er eiginmaður fyrrverandi samstarfsfélaga dómsmálaráðherra til margra ára á lögmannsskrifstofu og er í dag … (Gripið fram í.)— Já, hann var víst kosningastjóri í prófkjöri. — Nei, hv. þm. Birgir Ármannsson hristir hausinn. Það virðast þá ekki vera réttar upplýsingar. (Gripið fram í.) — Kjörstjórn, já, ókei. En klárlega eru tengingar þar, þessir aðilar eru líklega með sameiginlega heimssýn. Var þetta faglega fært til? Var þessi tilfærsla fagleg? Var hún á þeim forsendum fagleg bara eins og segir í lögum? Er þetta hæfari einstaklingur en sá sem tekinn var út? Það er það sem þetta snýst um. Ráðherra, eins og hún hefur sjálf margoft sagt og stendur í lögum, verður að velja hæfustu aðilana. Og við höfum ekki fengið að sjá hvers vegna þessi aðili er hæfari en hinn aðilinn sem tekinn er út.

Hvað eigum við að halda? Í alvöru, hvað eigum við að halda? Eigum við í alvörunni að halda að það sé ekki möguleiki að ráðherra hafi freistast, tekið gerræðislega ákvörðun? Eigum við í alvörunni ekki að halda það? Halda þingmenn, heldur hv. þm. Birgir Ármannsson, heldur dómsmálaráðherra í alvörunni að landsmenn muni ekki halda það líka? Ef þetta er ekki hafið yfir vafa er vantraust á ráðherra og á Alþingi að sjálfsögðu réttmætt. Við höfum til 1. júlí til þess að taka ákvörðun og vinna betur í málinu.

Minni hlutinn hefur lagt fram frávísunartillögu um að Alþingi vísi þessu frá sér þannig að ráðherra geti unnið þetta betur og við getum gert þetta þannig að það kosti ekki vantraust, við getum gert þetta þannig að landsmenn geti setið rólegir og hugsað: Ókei, loksins var mögulegt gerræði stoppað. Og þetta nýja dómstig, ókei, það fór vel af stað í öllu ferlinu, svo lenti ráðherra í basli en málinu var lent vel. Við getum verið öruggari um að þetta fólk sé ekki gerræðislega skipað, það er alla vega ekki farið gegn matinu.

Það munu verða dómsmál í þessu máli. Með þessari ákvörðun ráðherra, sem allt bendir til að gangi eftir, þ.e. varðandi gerræðislega ákvörðun, þá er vantraust að sjálfsögðu réttmætt.