146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[12:37]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Eina pólitíkin sem er komin í spilið er að í grunnstefnu Pírata segir að við eigum að vernda og efla borgararéttindi. Það er ómögulegt ef við höfum ekki réttarríki í þessu landi þar sem er hægt að treysta dómstólum landsins. Því dómstólarnir eru á endanum varnagli. Og í dag er Alþingi varnaglinn. Alþingi segir ekki á endanum: Já, þessi hérna, við skulum að velja þessa. Nei. Alþingi hefur aftur á móti neitunarvaldið. Ef ráðherra ákveður að fara á svig við það sem dómnefndin ákveður, er Alþingi með neitunarvald. Alþingi er með neitunarvald í þessu máli. Við höfum ekki fullnægjandi upplýsingar til að geta metið það sem hefur komið frá ráðherranum. Það er ástæðan.

Ef hv. þingmaður vill virkilega að unnið verði að því að byggja upp traust á grunnstoðum samfélagsins, m.a. Alþingi og dómstólum, getur hv. þingmaður, sem er í nefndinni en hefur ekki verið að sinna þessu máli, (Forseti hringir.) fengið tíma til að fara yfir öll gögn málsins og unnið það áfram. (Gripið fram í.) Nú? Fyrirgefðu, er þingmaðurinn ekki í nefndinni? Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd? (HildS: Jú.) Já. (Gripið fram í.) Ókei. Fyrirgefðu, það var eitthvað tímabundið sem þú kannski hefur ekki komist. (Forseti hringir.) Afsakið. En það er alla vega tími til þess að vinna málið. Það er til 1. júlí. (Forseti hringir.) Er þingmaðurinn ekki bara hlynnt því?(Forseti hringir.) Vinnum þetta frekar, það er eina pólitíkin, (Forseti hringir.) að vinna þetta betur. (Forseti hringir.) (HildS: Mætti á alla …)