146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[12:45]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Nei, þingmenn eiga ekki að velja dómara. Það er það fyrsta. Hv. þingmaður er þá að misskilja sviðsmyndina. Nei, þingmenn eiga ekki að velja dómara. Þingmenn eiga aftur á móti að segja já eða nei við ákvörðun eða tillögu ráðherra. Það er það sem þingmenn eiga að gera. Við höfum ekki fullnægjandi upplýsingar. Það er ekki sýnt að rökstuðningur ráðherra uppfylli lög og reglur og dómafordæmi, takið eftir því. Það nefnir enginn dómafordæmi, allir tala um lög og reglur. Dómafordæmi skipta máli líka. Það sögðu sérfræðingarnir í stjórnskipunarrétti og mjög hæfir lögfræðingar sem komu fyrir okkur í nefndinni. Þannig að það er ekki sýnt. Við höfum haft tvo daga. Sviðsmyndin sem ég er að tala um og er fær er sú að það er hægt að fresta þessu máli, vísa því til ráðherra, það er eitt, eða fresta því að það sé tekið fyrir þannig að við getum farið betur yfir það og tryggt að farið sé að lögum og reglum og dómafordæmum þegar ráðherra víkur frá tillögu dómnefndar. Það er ekki sýnt. Við erum að biðja um tíma til að geta verið fullviss um að það sé sýnt. Því annars hvað? Annars er búið að (Forseti hringir.) skipa þá. Og það er þannig, eins og með náttúruna, að þú lætur hluti njóta vafans sem eru ekki afturkræfir. (Forseti hringir.)Ef það er skipað núna er skipunin ekki afturkræf. Þess vegna þurfum við tíma áður en það er skipað í embættin. Við höfum til 1. júlí.