146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[12:46]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég bað hv. þingmann ekki um að endurtaka sína bjartsýnu sviðsmynd um hvað færi hér fram. Ég bað þingmanninn um að svara þeirri spurningu hvort hann væri ekki hræddur um að þessi viðbótarmánuður sem hér yrði gefinn yrði til þess að það kæmi þrýstingur á þingmenn, hugsanlega frá fólki sem hefur sótt um þessa stöðu eða mönnum þeim tengdum, um að hafna listanum í því skyni að búa til einhvern annan lista með einhverjum þeim nátengdum á. Er hv. þingmaður ekki hræddur um það? Heldur hv. þingmaður að ef það gerist, og ég held að það séu líkur á að það verði þannig því ég þekki mannlegt eðli ágætlega, muni það skapa frið og meiri virðingu og meira traust á dómstólum og því fyrirkomulagi sem við erum að vinna að?