146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[12:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að einhverju leyti í framhaldi af síðustu orðaskiptum er kannski rétt að hafa í huga að ráðherra ber stjórnskipulega, lagalega og pólitíska ábyrgð á þeim ákvörðunum sem hann tekur. Það er mun ríkari ábyrgð að þessu leyti og í þessum tilvikum en við berum sem þingmenn. Ráðherra þarf, miðað við ákvæði laganna sem nú gilda, að standa frammi fyrir þinginu og rökstyðja ákvörðun sína. Það er síðan mat þingmanna hvort þeir telji þann rökstuðning fullnægjandi eða ekki. Ráðherra getur líka lent í þeirri stöðu að mál sé höfðað gegn honum vegna embættisfærslu í málum af þessu tagi eins og hefur gerst í ýmsum tilvikum í fortíðinni. Þá verður auðvitað (Forseti hringir.) ábyrgð ráðherra mikil. Þingið er hvorki (Forseti hringir.) í sambandi við þessa embættisfærslu úrskurðaraðili á stjórnsýslustigi né dómstóll.