146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[12:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég var að koma á framfæri var að staða okkar og ráðherra er náttúrlega ólík í þessu sambandi. Við þurfum að taka afstöðu til þess hvort tillaga sem frá ráðherra kemur til okkar er að okkar mati fullnægjandi og þá er það auðvitað verkefni ráðherra að sannfæra okkur um það. Við í meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar teljum að þær tillögur sem ráðherra gerir í þessu máli séu byggðar á góðum og málefnalegum forsendum og drögum okkar ályktun af því. Hins vegar er ég kannski að benda á í þessu sambandi að auk þess að þurfa að standa frammi fyrir þinginu og bera hina pólitísku ábyrgð hér þá er ráðherra auðvitað í þeirri stöðu að þeir sem ósáttir eru við niðurstöðu hans í þessu máli geta leitað til dómstóla. Sú rannsókn sem fer fram fyrir dómstólum er auðvitað eðli málsins samkvæmt annars eðlis heldur en sú (Forseti hringir.) rannsókn sem getur átt sér stað hér innan þessara veggja.