146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[13:10]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Það eru til ýmis mál þar sem maður stendur í þessum ræðustól og gerir hluti sem manni er ekki endilega vel við. Maður samþykkir einhver göng í gegnum eitthvert fjall þar sem maður vill ekki að þau verði gerð, telur það tíma- og peningasóun, maður samþykkir skatta sem maður telur ekki góða eða fellir niður skatta sem maður telur góða og maður gerir hluti sem eru kannski hluti af stjórnarsáttmála og maður hefði sjálfur ekki lagt til. Maður fellst á einhverja málamiðlunartillögu sem átti maður sjálfur þátt í að leiða til lykta.

Þetta er ekki eitt af slíkum málum. Hér hef ég einfaldlega djúpa og innilega sannfæringu fyrir því að ég sé að gera rétt. Ég gæti aldrei gert nokkuð annað en ég er að gera hér, ég hef mjög djúpa sannfæringu. Ég ætla að færa rök fyrir þeirri sannfæringu minni í þremur skrefum.

Ég ætla í fyrsta lagi að færa rök fyrir því að ég tel afar óheppilegt að við séum yfir höfuð með þetta val. Þess vegna finnst mér miður að einhverju leyti að ég standi hér og tali í þessu máli. Ég vil ekki gera það, ekki frekar en ég vil fara í langa umræðu um rannsókn á kjörbréfi. Mér finnst þetta bara vera þannig mál. Ég vil ekki hafa þetta vald og hafi ég þetta vald vil ég ekki tala um það í löngu máli.

Síðan ætla ég að færa rök fyrir því að úr því að ég hef þetta vald, sem mér líkar mjög illa við að hafa, eigi ég að beita því annaðhvort alls ekki eða í besta falli afar sparlega.

Í þriðja lagi ætla ég að færa rök fyrir því að ef ég hefði þá afstöðu að ég ætti að taka málefnalega afstöðu til þeirrar tillögu sem hér hefur borist frá ráðherra — sem er ekki mín afstaða, því að ég tel ekki að ég eigi að taka málefnalega afstöðu til þess lista sem mér hefur verið birtur, en ég veit að það er afstaða nokkurra þingmanna hér — þá mun ég færa rök fyrir því að ég myndi engu að síður í góðri sátt og fullur sjálfstrausts greiða atkvæði með þeirri tillögu sem ráðherra hefur lagt fram, og gera það stoltur.

Í fjórða lagi langar mig að koma með nokkrar hugmyndir að lausnum í lok dags og sjá fyrir mér hvernig við gætum reynt að landa þessu með einhverjum góðum hætti.

En til að byrja með langar mig að segja að mér eru málefni dómstóla kær. Ég hef setið í stjórnlagaráði sem skrifaði stjórnarskrá. Og ég játa það, og það vita margir, að ég hef síðan orðið dálítið efins um það plagg sem þar varð til, en ég segi að ég er stoltur og ánægður með þá vinnu sem fram fór þegar kom að kaflanum um dómsmál. Það gerðist í þeirri nefnd þar sem ég var formaður og ég er einfaldlega mjög ánægður með þann kafla. Ég held að sá kafli sé talsvert betri en sá kafli sem við höfum í dag. Ég ætla að lesa allan kaflann, hann er ekki langur. Með leyfi forseta:

„98. gr. Skipan dómstóla.

Skipan dómstóla, þar á meðal dómstig og fjöldi dómara, skal ákveðin með lögum.

99. gr. Sjálfstæði dómstóla.

Sjálfstæði dómstóla skal tryggt með lögum.

100. gr. Lögsaga dómstóla.

Dómstólar skera endanlega úr um réttindi og skyldur að einkarétti, svo og sök um refsiverða háttsemi og ákveða viðurlög við henni. Dómstólar skera úr um hvort lög samrýmist stjórnarskrá. Dómstólar skera úr um hvort stjórnvöld hafi farið að lögum. Hjá ákvörðun stjórnvalds verður ekki komist í bráð með því að bera lögmæti hennar undir dóm.

101. gr. Hæstiréttur Íslands.

Hæstiréttur Íslands er æðsti dómstóll ríkisins og hefur hann endanlegt vald til að leysa úr öllum málum sem lögð eru fyrir dómstóla. Þó má ákveða með lögum að sérstakur dómstóll leysi endanlega úr ágreiningi um kjarasamninga og lögmæti vinnustöðvana, þó þannig að ákvörðunum hans um refsingu verði skotið til annarra dómstóla.

102. gr. Skipun dómara.

Dómarar eru þeir sem skipaðir hafa verið ótímabundið í embætti dómara eða settir til að gegna því um tiltekinn tíma. Til dómstarfa geta dómstólar ráðið eða kvatt aðra eftir því sem mælt er fyrir í lögum. Ráðherra skipar dómara og veitir þeim lausn. Dómara verður ekki vikið endanlega úr embætti nema með dómi, og þá aðeins ef hann uppfyllir ekki lengur skilyrði til að gegna embættinu eða sinnir ekki skyldum sem starfinu tengjast.

103. gr. Sjálfstæði dómara.

Dómarar skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögum.“

Nú skal ég upplýsa það fyrir þá sem eru áhugamenn um sögu tillagna stjórnlagaráðs, að svona leit tillagan um dómstóla út lengi vel. En á síðustu stundu, við þinglok í stjórnlagaráði — og við þau þinglok var ekki minni hasar en hér, það get ég sagt ykkur, einhverjum myndi finnast þinglokin í þinginu vera eins og lautarferð samanborið við það sem þar fór fram, og ég meina það — var bætt við grein um skipun embættis sem almennt tók aðeins fyrir frekar almennt orðaða klausu um skipun dómara þar sem ráðherra var falið það vald. Hún hljómaði svo þegar kemur að dómara:

„Þegar ráðherra skipar í embætti dómara og ríkissaksóknara skal skipun borin undir forseta Íslands til staðfestingar. Synji forseti skipun staðfestingar þarf Alþingi að samþykkja skipunina með 2/3 hlutum atkvæða til að hún taki gildi.“

Þetta þótti mörgum stjórnlagaráðsliðum mikilvægt til að búa til einhvers konar varnagla við gerræðislegri ákvörðun ráðherra, sem eru orð sem hér hafa verið nefnd. Ég var nota bene, ég get bara sagt það hér, ekki mjög hrifinn af þessari leið. Hér erum við svolítið að fara inn í hina bandarísku hugmynd um ólíka valdþætti sem stemma hver annan af, sem er satt að segja dálítið gamaldags hugsun þegar kemur að faglegum ráðningum í dómarastöður og alls ekki í anda bestu mögulegu aðferða að mati t.d. Evrópusambandsins, enda var þessi stjórnarskrá öll, þar á meðal þessi grein, borin undir Feneyjanefndina. Ég er hér með álit Feneyjanefndarinnar fyrir framan mig, sem er á ensku. Ég hyggst ekki lesa það í heild sinni hvað varðar þessar greinar, en ég ætla að þýða það lauslega. Þar segir sem sagt að samkvæmt greinargerð sé markmiðið með þessu ákvæði um tvo þriðju hluta atkvæða að sjá til þess að tilnefningar í dómarastöður séu faglegar og hlutlægar. En í 96. gr., sem er greinin um skipun embættismanna, er lokaákvörðun um skipun dómara alfarið sett í hendur stjórnmálamanna. Feneyjanefndin bendir á að þótt það geti verið í lagi, ef stjórnarskráin krefst þess að fyrirkomulagið sé þannig, að koma því þannig fyrir að þetta vald verði formlegt vari hún eindregið við því að þetta sé einhvers konar raunverulegt vald, pólitískt vald sem notað sé sem neyðarventill á ákvarðanir ráðherra. Ég ætla að lesa þessa tilvitnun á ensku, með leyfi forseta, og snara henni síðan yfir á íslensku:

„The Venice Commission thus stresses that the mechanism proposed by the bill contains a clearer potential of politicizing appointments.“ — Sem sagt, Feneyjanefndin leggur áherslu á að fyrirkomulagið sem lagt er til gefi mikla möguleika því á að stjórnmál muni ráða tilnefningum.

„This raises very serious concerns under European standards and cannot be considered acceptable.“ — Feneyjanefndin er mjög áhyggjufull yfir þessu og segir að það sé óásættanlegt samkvæmt evrópskum viðmiðum, að haga skipun dómara með þeim hætti að þingið þurfi að lokum að staðfesta skipun dómara. Af hverju finnst Feneyjanefndinni það? Það er náttúrlega af því að Feneyjanefndin vill sleppa við uppákomur og umræður eins og þessa. Það er bara niðurstaðan. Það er ekki gott. Feneyjanefndin bendir síðan á að í fordæminu sem vísað er til, sem er danska fordæmið, sé þessu allt öðruvísi farið. Því er þannig farið, sem ég held að væri miklu betri lausn, að ráðherra velji, að fengnu áliti fagnefndar — sem mig minnir að sé kosin af þinginu, en við getum haft það einhvern veginn — við getum haft það þannig hann velji úr hópi hæfra, lögfróðra manna hóp sérfræðinga sem gerir tillögu um dómara. Ef ráðherra kýs að skipa einhvern sem ekki er á þeim lista ber honum að tilkynna þinginu það, ekki bera það undir atkvæði heldur tilkynna. Það er talið ásættanlegt eftir evrópskum viðmiðum.

Ef þingið er síðan ósátt við ráðherra getur það borið fram vantraust á ráðherra. En ráðherrann er sá sem er ábyrgur fyrir ákvörðuninni. Sá sem er ábyrgur fyrir ákvörðuninni verður að fá að taka hana því að annars er fjandinn laus, frú forseti. Ráðherra sem er ábyrgur fyrir ákvörðuninni verður að fá að taka hana. Mér finnst það miklu betri uppsetning á allan hátt. Tekið er fram að það hafi aldrei gerst í sögu Danmerkur að ráðherra hafi einhvern tímann tilnefnt einhvern sem ekki hefur verið metinn hæfastur. Það myndi kannski verða gert öðruvísi hér, en ég held samt að það sé þess virði að láta á það reyna hvort það fyrirkomulag sé ekki miklu betri ventill en það sem við höfum lagt til í vanhugsun, vil ég meina, af slysni.

Gott og vel. Nú segja menn: Fínt, Pawel, þú hefur fært rök fyrir því að þetta fyrirkomulag sé vont og að þetta vald sem þú hefur sé vont, en þú hefur það vald engu að síður, er það ekki? Þú hefur þetta vald engu að síður og þér ber að nota það. Og þá segi ég: Mér ber bara ekki að nota það á einn eða annan hátt, mér ber ekki að gera það.

Trikkið við að vera þingmaður, hvort sem okkur hér inni líkar það betur eða verr, er að við förum með geðþóttavald þegar upp er staðið. Við förum með geðþóttavald, við ráðum því hvað við gerum. Ég get greitt atkvæði með þessari tillögu eða á móti henni, ég get komið með frávísunartillögu, ég get breytt skipun dómstóla og ég mun aldrei þurfa að bera nokkra ábyrgð á neinu af því nema þá pólitíska ábyrgð á fjögurra ára fresti.

Ráðherra sem misbeitir valdi sínu með einhverjum hætti þarf hins vegar að sæta lagalegri, stjórnskipulegri, pólitískri ábyrgð. Og af þeirri ástæðu vil ég fara gríðarlega sparlega með þetta vald. Þess vegna vil ég alls ekki taka að mér hlutverk einhvers konar stjórnsýsludómstóls, þ.e. að ég taki inn athugasemdir frá fólki sem er óánægt með skipun dómara, og kalli til sérfræðinga til að sjá hvað þeim finnst um þær athugasemdir, reyni síðan að móta mér eitthvert álit út frá því, eins og … óbreyttur borgari. Ég reyni annars vegar að taka til greina athugasemdir manna sem eru hámenntaðir í lögfræði og síðan einhverra manna sem eru í einhverjum samtökum og leggja mat á það. Ég vil bara ekki hafa þetta vald og ég vil ekki fara með það. Það er til annar aðili sem hefur það vald og það er ráðherra. Hann á að fara með það vald.

Ég vil ekki leggja mat á stjórnsýslulegar ákvarðanir ráðherra, hvað þá að ég vilji leggja mat á málefnalegar ástæður sem ráðherra tiltekur. Ef ég geri það þá er fjandinn laus, þá er það ekki þannig að við munum eiga gott sumar þar sem ráðherra og nefndin vinna í sameiningu. Nei, það er þegar byrjað að gerast að ósáttir aðilar sem sóttu um starfið eru farnir að senda opin bréf á þingmenn til að biðja þá um að fella þessa ákvörðun. Af hverju gera þeir það? Það er augljóst. Og það er engin ástæða til að draga persónulegan metnað fólks í efa. Auðvitað er það gríðarlegt mál þegar fólk leggur ævistarf sitt að veði í umsókn sem er kannski mörg hundruð blaðsíður á lengd og fær síðan uppröðun á einhverjum lista. Og svo kemur einhver annar aðili og segir: Þetta er ekki listinn sem ég vil fara eftir heldur er það allt annar listi. Ég hef verið í þeirri stöðu að vera á lista sem einhver annar aðili taldi síðan að væri ekki nægilega góður listi. Ég var kosinn til stjórnlagaþings og síðan kom Hæstiréttur Íslands og sagði að þessi listi væri alls ekki listi yfir fólk sem kosið væri til stjórnlagaþings. Það var erfitt og ég skil alveg að fólki finnist það erfitt. En ég held að mánuður í viðbót myndi bara kalla á mánuð af opinberum eða persónulegum hringingum umsækjenda í þingmenn eða aðra. Ég held að sá mánuður myndi ekki nýtast vel.

Ef ég væri hins vegar núna í þeirri neyð að þurfa að taka málefnalega afstöðu til tillögu ráðherra, sem ég tek fram að ég vil alls ekki gera og mér finnst gríðarlega óheppilegt að trúnaðargögn sem nefnd fær afhent leki út. Þeim er augljóslega lekið út í því skyni að kasta rýrð á suma umsækjendur. Hluti þessara gagna er þannig að menn fara að spyrja sig: Af hverju er þessi sem er svona neðarlega skyndilega kominn í … (Gripið fram í.) — Ég er með orðið, hv. þingmaður. (BirgJ: … Þú ert að saka nefndarmenn …) Ég sagði að gögnum hefði verið lekið út. Það er óheppilegt, ég sagði ekki að það hefði gerst úr nefndinni.

(Forseti (JSE): Þingmaður í ræðustól hefur orðið.)

Ég sagði að gögnum hefði lekið út og það er gríðarlega óheppilegt. Það er augljóst að sú staðreynd um gagnalekann hefur kastað rýrð á sumt af fólkinu á þessum lista.

Ég vil hins vegar meina eftir að hafa skoðað og setið yfir þeim trúnaðargögnum sem þar eru, að það er mjög auðvelt — í fyrsta lagi ef maður gefur sér þær forsendur að ráðherra hafi viljað auka vægi dómarastarfa. Í öðru lagi ef maður gefur sér þær forsendur að ráðherra hafi tekið til sín þau skilaboð sem komu margítrekað fram í þessum ræðustól við afgreiðslu undanfara þessa máls, um að við skipun dómara í nýjum dómstól þyrfti að tryggja að hlutfall kynjanna væri sem jafnast. Ef maður ímyndar sér að ráðherra hafi gefið sér þessi ofangreindu málefnalegu sjónarmið og tekið þau alvarlega get ég mjög vel séð út frá gögnum málsins, þeim trúnaðargögnum, sem birtast í ákveðinni töflu, að hún hafi komist að þessari niðurstöðu.

Ég gæti vel hafa komist að sambærilegri niðurstöðu ef ég hefði þurft að leggja á það mat. Það er mitt persónulega mat, einhver annar gæti verið ósammála, en ég vil ekki ræða of mikið um það í ræðustól vegna þess að of ítarlegar umræður um það munu kalla á að við förum að ræða um persónulegt mat, trúnaðargögn og persónuupplýsingar fólks sem fór í ákveðið ferli í von um að gætt yrði trúnaðar sem einhvern veginn var ekki gert.

Ef ég ætti að taka málefnalega afstöðu til þessa máls út frá þeim gögnum sem liggja fyrir gæti ég vel rökstutt það. Kannski finnst einhverjum að eitthvert eitt nafn ætti að færa á einhvern annan stað, en í heildina finnst mér rökstuðningur ráðherra vera nægilegur og ganga upp.

Eins og ég segi og hef sagt áður myndi ég miklu frekar vilja að við tækjum upp danskt fyrirkomulag þar sem er hæfnisnefnd, hugsanlega kosin af Alþingi, sem velur milli hæfra einstaklinga og ráðherra er bundinn af þeirri niðurstöðu að því leyti að ef hann kýs að fara á svig við hana þarf hann að tilkynna það til Alþingis með sérstökum hætti. Ég held að það sé miklu betra vegna þess að það er ráðherra sem fer með valdið. Og segjum nú að við tökum tvo mánuði í viðbót eða einn mánuð í viðbót og búum til allt annan lista, hendum út einu nafni af þessum lista og setjum annað í staðinn. Þá kemur einhver sem er á þessum lista og dettur út og fer með mál sitt fyrir dómstóla. Það mun gerast hvort sem er. Þegar 30 lögfróðustu menn landsins og konur sækja um starf sem þau vilja fá er mjög ólíklegt annað en að það endi þannig að einhver fari í mál. Það mun gerast hvort sem er. Ef við höfum síðan ákveðið að taka eitthvert eitt eða tvö nöfn af listanum og setja annað eða önnur í staðinn og þeir einstaklingar kæra og fara með mál sitt fyrir dómstóla, í hvaða stöðu erum við þá sem ríkisvald? Ráðherra er kærður fyrir að ráða ekki mann eða konu sem ráðherra vill ráða. Hvernig gengur það upp? Það gengur einfaldlega ekki upp stjórnskipulega. Þess vegna eigum við ekki að sækja okkur það vald.

Mig langar aðeins að ræða við þá þingmenn sem eru hér, ef þeir vilja vinsamlegast vera áfram í salnum, en ég skil svo sem að þeir hafi öðrum skyldum að gegna. Ég er meira en tilbúinn að setjast niður með fólki og fara yfir þessi trúnaðargögn og færa rök fyrir máli mínu, ég held að það sé góð málefnaleg ástæða fyrir því að ræða það. Ég vil almennt ekki gera það en ef það verður til að snúa að einhverjum er ég alveg til í að gera það. Það er mitt tilboð núna til kl. 17–18 vegna þess að augljóslega þurfum við síðan að taka ákvörðun. En ég er til í að sannfæra fólk um það.

Ef menn eru ekki á því að fallast á þennan lista hef ég ákveðna verkfærakistu fyrir fólk sem ég vil að það íhugi að nota. Í fyrsta lagi myndi ég biðla innilega til fólks, frá mínum dýpstu hjartarótum, að greiða ekki atkvæði gegn þessari tillögu, að það komi ekki rauð ljós á takkana þegar við erum að skipa nýtt millidómstig. Það væri mjög slæmt og ég held að það væri þyngra en tárum tæki ef það yrði. Ég bið alla vega fólk sem er að hugsa um að gera það að íhuga að fara á gula takkann í staðinn. Ef fólk er að íhuga að fara á gula takkann myndi ég biðja fólk að íhuga það að fara á græna takkann með þeirri ítarlegu skýringu í atkvæðum að það sé ekki að leggja blessun sína yfir allt ferlið, það sé einungis að leggja blessun sína yfir þá skoðun sína að það sé farsælt að nýtt millidómstig verði skipað þannig að ekki skapist vafi um traust á einstaka dómurum. Það er eitt að hafa vantraust á ráðherra sem ekki er samflokksmaður en það er annað að senda þau skilaboð í flókinni atkvæðagreiðslu um 15 nöfn, að sumir þeirra sem þar eru njóti ekki trausts Alþingis. Allt þetta fólk er samkvæmt dómnefndinni hæfir einstaklingar.