146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[13:38]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Frú forseti. Það er náttúrlega bara sá tími sem um hefur verið samið að þetta myndi standa. Ég kem þarna með tilboð sem óbreyttur þingmaður, um að ræða við þingmenn í ró og spekt, án þess að vera rifinn út og að mér sé bannað að tala við þá, að ég fái bara að tala einslega við þingmenn. Kannski er það vont tilboð. Kannski vilja menn ekki þiggja það. Og það er allt í lagi. Kannski finnst mönnum tíminn of skammur og það er fínt. (Gripið fram í.) Ég er bara að segja að ég hef djúpa sannfæringu í þessu máli og ef ég get smitað þeirri sannfæringu yfir á aðra finnst mér tíma mínum vel varið.

Ég er ekki á þeirri skoðun að Alþingi eigi ekki að hafa eftirlitshlutverk. Hér hafa menn t.d. tiltekið ákveðna leið fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að hún hafi eftirlit með ráðherra og ákvörðun hennar. En mér finnst það samt ekki endilega vera þessari ákvörðun viðkomandi. Það er bara önnur spurning. Í þessari ákvörðun finnst mér að við eigum, samkvæmt bestu tilmælum Evrópuráðsins, að láta sem þetta vald sé fyrst og fremst formlegt. Ef menn hafa síðan einhverja aðra skoðun þá höfum við stofnanir, umboðsmann Alþingis, (Forseti hringir.) við höfum dómstóla til að skera úr um hvort ráðherra hafi farið að lögum eða ekki.