146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[13:42]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Spurningar mínar snúa einfaldlega að því valdi sem ráðherra hafði áður en þetta ferli fór af stað til þess að hafa áhrif á mat nefndarinnar, þ.e. ráðherra getur ákveðið að dómarastörf skuli vega meira en þau gera í starfi dómnefndarinnar áður en hún tekur til starfa. Áður en hún fer að meta umsóknir. Til þess hefur ráðherra vald. Hún getur breytt þessum reglum. Hún kaus að gera það ekki. Ráðherra hefur líka og hafði vald til að samþykkja breytingartillögur minni hlutans um að lög um jafnan rétt karla og kvenna skyldu höfð til hliðsjónar þegar valið yrði í þessi embætti, því að jafnréttislögin gilda ekki um dómara. En það hefði verið ágætt að setja það inn í lögin að dómnefndin, valnefndin, skyldi fara eftir þessum sjónarmiðum. Ef þetta eru raunverulega sjónarmið sem skipta ráðherra máli, hvers vegna sagði hún ekki píp um það áður en þetta gerðist? Bara eftir á þegar það hentar henni að svissa nokkrum yfir í já-bunkann sem henni þóknast. Hvernig eigum við að treysta því? Og ég verð að spyrja í loki: Á hvaða hátt er þetta samrýmanlegt stefnuyfirlýsingu (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar um að efla traust á Alþingi og efla traust á dómstólum? Þetta er bara ólíðandi, frú forseti.